Af hverju ætti ég að sækja um skráningu á vörumerki?
Vörumerki eru notuð til að merkja vörur og þjónustu. Vörumerki geta verið ýmiskonar sýnileg tákn, til dæmis orð og orðasambönd, myndir (lógó), heiti á fyrirtækjum, slagorð, umbúðir vöru o.fl. Með vörumerki getur þú aðgreint þínar vörur og/eða þjónustu frá vörum og/eða þjónustu annarra. Með því að sækja um skráningu hjá Einkaleyfastofunni er hægt, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, að fá merki skrásett og öðlast þannig einkarétt á notkun þess hér á landi. Meginreglan er sú að eigandi merkisins getur komið í veg fyrir að aðrir, í sömu eða svipaðri atvinnustarfsemi, geti notað merki sem eru eins eða lík. Réttur til vörumerkis getur stofnast með notkun þess, en með skráningu er auðveldara að sanna rétt sinn til viðkomandi vörumerkis.