Janúar tölublað ELS-tíðinda er komið út

15/01/2018

1. tölublað ELS-tíðinda 2018 er komið út.  Eintakið má nálgast rafrænt hér. 

Á árinu 2017 tóku samtals 1.436 einkaleyfi gildi hér á landi, samanborið við 1.248 árið 2016 og er það fjölgun um 15% á milli ára. Fjölgunin milli áranna 2015 og 2016 var um 19%. Viðlíka vöxtur hefur aldrei sést í gildistöku einkaleyfa á Íslandi og er nú svo komið að yfir 6.600 einkaleyfi á tæknilegum uppfinningum eru í gildi hér á landi.
Árið 2017 var sömuleiðis metár hvað varðar fjölda skráðra vörumerkja, en aldrei hafa verið skráð fleiri vörumerki hér á landi en á síðasta ári. Þau voru samtals 4.517 og fjölgaði um 32% á milli ára. Vöxturinn milli áranna 2015 og 2016 var að sama skapi um 13%. Nú eru vel yfir 61.000 vörumerki skráð hér á landi.
Hönnunarskráningar á árinu 2017 voru 159 og fjölgaði um 37% frá síðasta ári og eru nú rétt um 1.000 skráningar í gildi.
Umsóknartölur fyrir þessi þrjú verndarsvið á síðari hluta ársins 2017 og á fyrstu dögum ársins 2018, vöxturinn í íslensku efnahagslífi og ekki síst aukin vitund um mikilvægi þess að vernda hugverkaréttindi gefa góð fyrirheit um áframhaldandi fjölgun skráninga hjá Einkaleyfastofunni.