Breytingar varðandi túlkun á yfirskriftflokka Nice flokkunarkerfisins um vöru og þjónustu sem taka gildi 1. janúar 2014

20/12/2013

Með hliðsjón af dómi Evrópudómstólsins frá 19. júní 2012 í máli C-307/10 (IP TRANSLATOR) og í samræmi við túlkun Alþjóðahugverkastofnunarinnar (WIPO) og Vörumerkja- og hönnunarskrifstofu Evrópusambandsins (OHIM), mun Einkaleyfastofan frá og með 1. janúar 2014 túlka yfirskrift flokka Nice flokkunarkerfisins um vöru og þjónustu á þá leið að hún taki eingöngu til þeirrar vöru eða þjónustu sem tilgreind er.

Einkaleyfastofan mun áfram taka við umsóknum þar sem yfirskrift vöru- og/eða þjónustuflokka er valin, en eins og að framan greinir tekur verndin eingöngu til þeirrar vöru eða þjónustu sem tilgreind er í yfirskrift flokkanna.  Einkaleyfastofan vekur jafnframt athygli á því að takmörkun verður frá og með sama tíma gerð á yfirskriftum flokka nr. 6, 7, 14, 16, 17, 18, 20, 37, 40 og 45 í ljósi þess að hluti þeirra telst of víðtækur. Takmörkun þessi er gerð í samræmi við ákvörðun OHIM frá 20. nóvember 2013 en samskonar takmörkun mun verða gerð í öllum aðildarlöndum Evrópusambandsins auk Noregs.

Lesa meira.

Eigendur vörumerkjaskráninga, þar sem yfirskrift flokkanna var notuð fyrir 1. janúar 2014, munu fá tækifæri til að tilgreina nánar vöru og/eða þjónustu í stað yfirskriftarinnar. Einungis er hægt að óska eftir þessu einu sinni og aðeins við fyrstu endurnýjun merkis eftir 1. janúar 2014. Það skal tekið fram að Einkaleyfastofan mun ekki undir nokkrum kringumstæðum samþykkja útvíkkun verndarinnar og verður því við endurnýjun miðað við þá útgáfu Nice flokkunarkerfisins sem í gildi var þegar merkið var skráð. Í þeim tilvikum þar sem eigendur vörumerkjaskráninga nýta sér ekki þennan möguleika við endurnýjun, mun eingöngu reyna á það í ógildingarmáli fyrir Einkaleyfastofunni eða dómstólum til hvaða vöru eða þjónustu skráning merkis tekur. Í þeim tilvikum er það eiganda viðkomandi vörumerkis að sýna fram á til hvaða vöru og/eða þjónustu skráning merkis tekur í raun, sbr. 25. gr. laga nr. 45/1997 um vörumerki. Vöru- og/eða þjónustuflokkar slíkra skráninga verða því mögulega takmarkaðir með hliðsjón af því hvaða notkun telst sönnuð í slíku máli.