Nýtt númerakerfi fyrir vörumerkjaumsóknir

04/06/2015

Einkaleyfastofan vinnur nú að því að taka í notkun nýjan gagnagrunn fyrir vörumerki.

Unnið verður að yfirfærslu úr eldra kerfi næstu daga og af þeim sökum geta hugsanlega orðið einhverjar truflanir við leit í vörumerkjaskrá á heimasíðunni.

Ýmsar breytingar fylgja þessum nýja gagnagrunni en fyrst um sinn verður helsta breytingin gagnvart viðskiptavinum sú að nýtt númerakerfi verður tekið í notkun. Frá og með  4. júní  fá allar nýjar umsóknir einkvætt auðkenni með forskeytinu V og sjö tölustöfum sbr.  V0097000.

Umsóknir fá ekki annað númer við skráningu heldur halda þær alltaf sama auðkenninu. Þessu má í raun líkja við kennitölur einstaklinga og er þetta í takt við það kerfi sem erlendar systurstofnanir hafa í auknum mæli tekið upp.

Eldri umsóknir hafa allar fengið sambærilegt auðkenni en áfram verður hægt að leita eftir gömlu númerunum og nota þau í samskiptum við Einkaleyfastofuna.