Helstu skilyrði verndar

 Til þess að Einkaleyfastofan geti skráð vörumerki þarf merkið að uppfylla ákveðin skilyrði.

  • Vörumerkið verður að vera til þess fallið að greina vörur eða þjónustu eiganda þess frá vörum eða þjónustu annarra.
  • Vörumerkið verður að hafa nægjanlegt sérkenni.
  • Vörumerkið má ekki vera of líkt skráðu vörumerki eða heiti á fyrirtæki annars aðila.
  • Vörumerkið má ekki lýsa tegund vörunnar, ástandi, magni, notkun, verði, uppruna eða öðru álíka. Sömuleiðis fást ekki skráð algeng tákn eða orð sem algeng eru í viðskiptum eða notuð í daglegu máli.
  • Vörumerkið má ekki innihalda opinber tákn s.s. fána eða skjaldamerki, nema að fengnu sérstöku leyfi.
  • Vörumerki má ekki brjóta á höfundarétti annars aðila.
  • Vörumerki sem innihalda óskráningarhæf orð eins og t.d. Ísland eða gæðaþjónusta geta þó fengist skráð í tiltekinni útfærslu eða með mynd sem hefur nægjanlegt sérkenni. Einkarétturinn er þá veittur á heildarmynd merkisins en ekki orðunum sem slíkum.

Sjá nánar lög um vörumerki nr. 45/1997 með síðari breytingum

Umsóknir um vörumerki sem lagðar eru inn hjá Einkaleyfastofunni eru rannsakaðar með öll ofangreind atriði í huga.  Sömuleiðis fá umsóknirnar umfjöllun nefndar sérþjálfaðra starfsmanna og lögfræðinga stofnunarinnar.