Frestur til þess að tilgreina flokkalýsingu nánar í alþjóðlegri skráningu

22/02/2016

Einkaleyfastofan vekur athygli á því að rétthafar vörumerkja, sem skráð voru Evrópusambandsskráningu eða alþjóðlegri skráningu með tilnefningu á Evrópusambandinu fyrir 22. júní 2012, geta innan skamms lagt inn beiðni til OHIM (skráningarskrifstofu Evrópusambandsins) um nánari tilgreiningu á þeim vörum/þjónustu sem falla undir viðkomandi flokka, ef stuðst var við yfirskrift flokks (e. class heading) við skráninguna.

Sú leið sem nú er boðið upp á leiðir af dómi Evrópudómstólsins í máli nr. C-307/10 (IP Translator) frá 19. júní 2012 þar sem niðurstaðan var sú að túlka skyldi yfirskrift flokka samkvæmt orðanna hljóðan. Í kjölfar dómsins var túlkun á yfirskrift flokka samræmd innan Evrópusambandsins með þeim hætti að yfirskrift flokks merkir eingöngu það sem hún segir en nær ekki yfir allar tilgreiningar á vöru eða þjónustu sem falla undir viðkomandi flokk. Það sama á við hér á landi, sbr. tilkynningu þess efnis á vefsíðu Einkaleyfastofunnar.

Verði þessi möguleiki ekki nýttur fyrir tilgreindan frest, eiga rétthafar þeirra merkja sem skráð voru með yfirskrift flokks það á hættu að verndarumfang verði þrengra en ætlunin var, þ.e. að tilgreining viðkomandi flokks verði eftirleiðis túlkuð eftir orðanna hljóðan.

Nánari upplýsingar um ferlið, eyðublöð og svör við helstu spurningum er að finna á vefsíðum WIPO hér og OHIM hér.