Fjölmenn ráðstefna Einkaleyfastofunnar um hugverk og atvinnulíf

20/05/2016

Frétta mynd

Í tilefni af 25 ára afmæli Einkaleyfastofunnar var efnt til alþjóðlegrar ráðstefnu um hugverk og atvinnulíf í Kaldalóni í Hörpu þann 17. maí  síðastliðinn.

Ráðstefnan, sem nefndist IP and Business, var vel sótt af íslenskum og erlendum gestum en markmið með hennar var að vekja athygli á því mikilvæga hlutverki sem hugverk gegna fyrir fyrirtæki og atvinnulífið í dag en þau eru oft verðmætasta eign fyrirtækja. Dagskrá ráðstefnunnar var vegleg en þar komu koma saman aðilar sem starfa á sviði hugverkaréttar ásamt aðilum úr atvinnulífinu.

Borghildur Erlingsdóttir, forstjóri Einkaleyfastofunnar, setti ráðstefnuna þar sem hún ræddi þær miklu breytingar sem hafa átt sér stað á síðustu 25 árum síðan Einkaleyfastofan var stofnuð árið 1991 og hvaða áhrif þær hafa haft á hugverka- og viðskiptaheiminn. Nefndi hún þar helst internetið, en það var einmitt opnað fyrir almenning sama ár. Einnig nefndi hún mikilvægi samstarfs Íslands við alþjóðastofnanir á sviði hugverkamála.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, ávarpaði ráðstefnugesti og óskaði þar Einkaleyfastofunni til hamingju með áfangann og ræddi um mikilvægi hugverka í ráðuneyti sínu og nefndi þar vinnu stýrihóps um hugverkastefnu fyrir Ísland sem var skipaður haustið 2014.

Fulltrúar frá alþjóðlegum stofnunum á sviði hugverka sem Ísland er í samstarfi við ávörpuðu einnig ráðstefnugesti. Binying Wang, aðstoðarforstjóri Alþjóðahugverkastofnunarinnar (WIPO), Antonio Campinos, forstjóri Vörumerkja- og hönnunarskrifstofu Evrópusambandsins (EUIPO) og Željko Topić, aðstoðarforseti Evrópsku Einkaleyfastofunnar óskuðu öll Einkaleyfastofunni til hamingju með árin 25 og vonuðust til að halda áfram því ánægjuríka samstarfi sem stofnanir sínar hafa átt við Ísland í gegnum árin.

Ráðstefnunni, sem var stýrt af Eddu Hermannsdóttir, samskiptastjóra Íslandsbanka, var skipt upp í þrjú þema, en fyrsta þemað var um mikilvægi hugverka fyrir fyrirtæki á alþjóðlegum mörkuðum. Þar ræddu Sveinn Sölvason, fjármálastjóri Össurar, og Ingólfur Örn Guðmundsson, markaðsstjóri Marel, um hvernig alþjóðavæðing fyrirtækjanna hefur haft áhrif á hugverkamál þeirra.

Annar hluti ráðstefnunnar fjallaði sérstaklega um snyrtivöru- og líftæknifyrirtæki en þar ræddu Ása Brynjólfsdóttir, yfirmaður rannsóknar og þróunar hjá Blue Lagoon, og Kristinn D. Grétarsson, framkvæmdastjóri Orf Genetics um mikilvægi hugverkaréttinda fyrir fyrirtæki á þessum sviðum. Bæði fyrirtæki hafa náð góðum árangri í alþjóðlegri markaðssetningu á síðustu árum þar sem verndun vörumerkja og einkaleyfa hafa verið einstaklega mikilvæg.

Þriðji hluti ráðstefnunnar var tileinkaður nýsköpunarfyrirtækjum en þar ræddu Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, Erla Skúladóttir, stjórnarformaður Lauf Forks, Helga Valfells, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups um þau tækifæri og áskoranir sem nýsköpunarfyrirtæki mæta þegar þau eru að feta sín fyrstu skref í viðskiptaheiminum. Ræddu þau meðal annars um að hugverkaréttindi eru að verða meira og meira óaðskiljanlegur hluti viðskiptastefnu fyrirtækja, sérstaklega þegar þau stefna á erlendan markað, og nauðsynlegt er að huga að þeim frá byrjun.

Að lokum stýrði Edda Hermannsdóttir umræðum milli Ara Kristins Jónssonar, Ástu Valdimarsdóttur, framkvæmdastjóra hjá WIPO, og Almars Guðmundssonar, framkvæmdastjóra Samtaka Atvinnulífsins þar sem var farið yfir það helsta sem kom fram á ráðstefnunni.

Í tilefni ráðstefnunnar var einnig opnuð glæsileg sýning listakonunnar og grafíska hönnuðarins Elsu Nielsen um sögu og þróun hugverkaréttar á Íslandi. Sýningin var opnuð samhliða ráðstefnunni fyrir utan Kaldalón í Hörpu, en þar var sýnd þróun vörumerkja, uppfinninga og hönnunar í gegnum árin og hvernig þessi hugverk eru allstaðar í kringum okkur dags daglega.

Að ráðstefnunni lokinni var boðið upp á léttar veitingar þar sem Karlakórinn Esja söng nokkur lög af sinni alkunnu snilld.

Einkaleyfastofan vill þakka öllum þátttakendum og gestum ráðstefnunnar fyrir að hafa notið dagsins með sér.