Desember tölublað ELS-tíðinda er komið út

15/12/2016

Desember tölublað ELS-tíðinda er komið út. Tíðindin eru aðeins birt með rafrænum hætti en útprentun af tíðindunum er þó fáanleg hjá Einkaleyfastofunni gegn greiðslu.

Í blaðinu er m.a. tilkynnt um skráningu 345 nýrra vörumerkja. Af þeim eru 95 landsbundin vörumerki; 48 í eigu íslenskra aðila og 47 í eigu erlendra aðila. Alþjóðleg vörumerki sem eru skráð að þessu sinni eru 250. Það sem af er ári hafa þar með verið skráð samtals 3.233 vörumerki samanborið við 2.852 á sama tíma í fyrra og er það rúmlega 13% aukning. Aukningin skýrist alfarið af fjölgun íslenskra umsókna og skráninga frá fyrra ári.

Í blaðinu er jafnframt auglýst endurnýjun 269 vörumerkja og hafa þar með 3.283 vörumerki verið endurnýjuð á árinu, samanborið við 2.571 í fyrra. Fjölgunin milli ára er þannig tæp 28%.

Fjórar landsbundnar hönnunarskráningar eru auglýstar í blaðinu að þessu sinni. Tvær eru íslenskar en hinar tvær ítalskar. Auk þeirra eru auglýstar níu alþjóðlegar hönnunarskráningar. Endurnýjaðar hönnunarskráningar að þessu sinni eru tíu.

Þá hafa 1.091 evrópsk einkaleyfi verið staðfest á Íslandi það sem af er í árinu. Í blaðinu eru 118 staðfestingar auglýstar. Það er í fimmta skipti á árinu sem fjöldi staðfestinga fer yfir 100 í mánuði. Áður hafði það aðeins gerst þrisvar sinnum; í nóvember 2014 og í desember 2012 og 2013. Heildarfjöldi staðfestinga það sem af er ári er tæplega 19% meiri en á sama tíma í fyrra.

graf_desember2016.jpg

graf_desember2016.jpg, by Peturmj

Í blaðinu eru auglýstar tvær aðgengilegar, landsbundnar einkaleyfisumsóknir í eigu íslenskra aðila og tvö landsbundin einkaleyfi, bæði í eigu erlendra aðila. Jafnframt eru í blaðinu auglýstar þrjár umsóknir um viðbótarvernd og tvö veitt viðbótarvottorð, allt í eigu erlendra aðila.