Breytingar varðandi umboðsmenn gagnvart EUIPO

23/03/2016

Einkaleyfastofan hefur áður greint frá því að í dag, 23. mars 2016, taki breytingar á reglugerð um skráningu vörumerkja í Evrópusambandinu gildi. Reglugerðin, þ.e. Regulation (EU) No 2015/2424 of the European Parliament and of the Council amending the Community trade mark regulation, hefur auk þeirra breytinga sem fyrr voru auglýstar þau áhrif að umboðsmenn frá þeim ríkjum Fríverslunarsamtaka Evrópu - EFTA sem aðilar eru að EES-samningnum geta nú komið fram fyrir hönd umsækjenda og eigenda vörumerkja gagnvart EUIPO (áður OHIM). Athygli er vakin á því að enn sem komið er taka þessar breytingar aðeins til umboðsmennsku vegna vörumerkja en ekki vegna hönnunar.

EUIPO heldur úti lista yfir þá umboðsmenn sem rétt hafa til að koma fram fyrir hönd umsækjenda/eigenda og til þess að komast á þann lista þurfa umboðsmenn að senda útfyllt og undirrituð eyðublöð til EUIPO. Eyðublaðið verður aðgengilegt á næstu dögum og mun Einkaleyfastofan birta það hér á síðunni um leið og hægt er.

Einkaleyfastofan þarf að staðfesta við EUIPO að þeir umboðsmenn sem sækja um að komast á lista umboðsmanna hafi rétt til þess að koma fram fyrir hönd umsækjenda/eigenda gagnvart Einkaleyfastofunni. Einkaleyfastofan mun því með reglulegu millibili senda EUIPO uppfærða lista yfir umboðsmenn.

Til þess að skráning og staðfesting gangi snurðulaust fyrir er því nauðsynlegt að senda Einkaleyfastofunni tilkynningu um leið og óskað er eftir skráningu á lista EUIPO. 

Nánari upplýsingar um breytingarnar má finna á nýrri vefsíðu EUIPO: www.euipo.europa.eu