Breyting á útgáfu árgjaldavottorða

09/09/2015

Einkaleyfastofan hefur ákveðið að gera eftirfarandi breytingar varðandi afgreiðslu árgjalda frá og með 1. október 2015:

1. Upplýsingar sem fram koma á árgjaldavottorðum verða takmarkaðar frá því sem verið hefur. Bókfræðilegar upplýsingar um umsóknir/einkaleyfi, svo sem umsóknardagsetning, dagsetning veitingar, eigandi og umboðsmaður koma ekki fram á vottorðum útgefnum eftir breytinguna. Þessar upplýsingar eru hins vegar aðgengilegar í einkaleyfaskrá á heimasíðu Einkaleyfastofunnar, www.els.is.

Vottorðin munu eftir sem áður verða dagsett og innihalda upplýsingar um gjaldár, umsóknar- og einkaleyfisnúmer, hvenær næsta gjaldár hefst, hver greiddi og upphæð árgjalds. Þá verður á nýjum vottorðum greint sérstaklega frá því ef greitt er með álagi.

2. Afrit árgjaldavottorða, þegar annar en skráður umboðsmaður greiðir, munu ekki lengur verða útbúin og send skráðum umboðsmanni. Umboðsmenn geta fylgst með greiðslu árgjalda á heimasíðu stofnunarinnar.    

Þessar breytingar munu hafa í för með sér aukinn hraða í afgreiðslu árgjalda og verða allar beiðnir afgreiddar eins fljótt og hægt er. Vonast er til að þessi breytta framkvæmd falli vel að þörfum viðskiptavina Einkaleyfastofunnar.