»

Bretar fullgilda alþjóðlegan samning um stofnun samræmds einkaleyfadómstóls

Bretar fullgilda alþjóðlegan samning um stofnun samræmds einkaleyfadómstóls

04. maí 2018

Bretar hafa fullgilt alþjóðlegan samning um stofnun samræmds einkaleyfadómstóls (e. Unified Patent Court Agreement) en þar með er stórt skref stigið í átt að sameiginlegu evrópsku einkaleyfi (e. unitary patent).

Með sameiginlegu evrópsku einkaleyfi verður hægt að fá einkaleyfi hjá Evrópsku einkaleyfastofunni (EPO) sem gildir í allt að 26 löndum Evrópusambandsins en vonir standa til að þetta muni lækka kostnað og einfalda umsýslu varðandi verndun hugverka fyrir aðila í nýsköpun. Samræmdi einkaleyfadómstóllinn mun fara með lögsögu í málum tengdum sameiginlega evrópska einkaleyfinu.

Bretland er sextánda ríkið sem fullgildir samninginn en til að hann öðlist gildi þurfa þrettán af þeim 26 ríkjum ESB sem eru aðilar að samningnum að fullgilda hann, þar á meðal Frakkland, Þýskaland og Bretland. Nauðsynlegur fjöldi ríkja náðist árið 2017 en hingað til áttu þó Bretland og Þýskaland eftir að fullgilda samninginn en Frakkland gerði það árið 2014.

Ákveðið hefur verið að höfuðstöðvar dómstólsins verði í París en nánar má lesa um þetta í fréttatilkynningu Evrópsku einkaleyfastofunnar hér.